Klappir er nýr leikskóli við Höfðahlíð og er sambyggður við Glerárskóla.

Áætlað er að skólinn opni 1. september 2021.

Klappir eru 1.450 fermetrar að stærð á tveimur hæðum með góðu leiksvæði sem snýr í suður ásamt leiksvæði á þaki sem er að hluta yfirbyggt. Skólinn er 7 deilda og er gert ráð fyrir 144 börnum á aldrinum 1-6 ára. Fimm deildir eru á efri hæð ásamt kaffistofu og starfsmannarými, skrifstofum, sérkennslurými og samtalsherbergi. Tvær deildir eru neðri hæð ásamt sal, eldhúsi og þvottahúsi.

Klappir stefna á að verð heilsueflandi leikskóli og hefur nú þegar verið sótt um þátttöku í þróunarstarfi Heilsueflandi leikskóla. Með því að fara þá vegferð ætlum við að stuðla að heilbrygði og velferð allra sem að skólanum koma. Umhverfismennt og menntun til sjálfbærni verður áhersla skólans og höfum við sótt um að fara á græna grein hjá Landvernd og stefnum á að verða Grænfánaskóli. Við ætlum að stuðla að góðu námsumhverfi, auka félagsfærni og ýta undir æskilega hegðun með því að vinna samkvæmt SMT skólafærni.

Í klöppum verður lögð áhersla á nám í gegnum leik og sérstök áhersla verður á læsi og stærðfræði í daglegu starfi. Samstarf verður milli deilda og reglulega verður aldurshópum blandað í leik og starfi. Þetta samræmist kenningum Lev Vygotsky sem sagði að allar athafnir sem barnið upplifir í félagslegu samhengi verði að innri reynslu og kunnáttu. Einnig er framfarastefna John Dewey höfð til hliðsjónar en höfuðáhersla hans var að virkja athafnaþörf barnsins og vekja áhuga þess. Unnið verður með alla námsþætti í gegnum leik og sköpun og leitast við að virkja sjálfsprottinn áhuga barnanna í gegnum fjölbreyttan efnivið. Börnin verða hvött til sjálfshjálpar og stjálfstæðis með það að markmiði að efla sjálfsmynd þeirra og sjálfstraust.

Áhersla verður lögð á hlýlegan og glaðlegan staðblæ þar sem persónuleg og uppbyggileg samskipti starfsmanna, barna og foreldra er höfð að leiðarljósi. Við stefnum á að verða réttindaskóli frá unicef og hafa barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu starfi skólans.

Klappir verða í samstarfi við Glerárskóla með það að markmiði að skapa samfellu í námi barnanna og auðvelda þeim að flytjast milli skólastiga.

© 2016 - 2024 Karellen