Öll börn eiga rétt á að fá þá þjónustu sem þau þurfa þegar á þarf að halda. Það getur verið flókið að fá aðstoð við hæfi og vita hvert eigi að leita eftir henni.
Búið er að innleiða lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna sem í daglegu tali eru kölluð farsældarlögin. Samkvæmt lögunum eiga börn og foreldrar að hafa greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem þau þurfa og að þau fái rétta aðstoð á réttum tíma, frá réttum aðilum. Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi.
Nú er kominn vefur sem kallast Farsæld barna og þar má finna nánari upplýsingar um hvað löggjöfin felur í sér. Einnig má sjá aðgengilegt myndband sem lýsir í stuttu máli því sem lögin innibera.
Börn og foreldrar þeirra hafa aðgang að tengilið í skóla. Tengiliður Klappa er Kristjana I. Gunnarsdóttir sérkennslustjóri, kris@akmennt.is beinn sími: 414-3163.
Hlutverk tengiliðar er fyrst og fremst að veita upplýsingar, aðstoða foreldra og barn og styðja við samþættingu á fyrsta stigi í samræmi við óskir foreldra og/eða barns. Í flóknari málum hafa börn og foreldrar aðgang að málstjóra hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar eða þar sem þarfir barns liggja hverju sinni.
Foreldrar og börn geta leitað sjálf beint til tengiliðar eða sent beiðni í gegnum Þjónustugátt Akureyrarbæjar.