Læsi í Klöppum

Læsi er skilgreint sem víðtæk færni sem felur í sér bæði tæknilega færni og skilning. Læsi nær því ekki einungis yfir það að geta lesið tákn og umskráð texta, heldur einnig að geta meðtekið og miðlað þekkingu manna á milli með fjölbreyttum hætti. Læsiskennsla felur því í sér fjölbreytta vinnu með mál, samskipti og miðlun*.

* http://lykillinn.akmennt.is/hvad-er-laesi/hvad-er-laesi-2/

Í leikskólanum bjóðum við upp á mál og lestrar hvetjandi umhverfi í leik og starfi
Við notum kennsluefnið Lubbi finnur málbein en þar eru fjölbreytt verkfæri til að styðja nemendur til læsis og er lögð áherlsa á málhljóða innlögn allan veturinn.

Kennarar leikskólans leggja ríka áherslu á að setja orð á alla hluti og athafnir í daglegu starfi með nemendum s.s. í fataherbergi, matartímum, hópastarfi, leik o.fl.

Bækur eru ávallt aðgengilegar fyrir nemendur og rík áhersla lögð á að kenna þeim góða umgengni um þær.


Tvisvar til þrisvar á dag er starfið brotið upp með samverustundum þar sem kennarar stýra stund þar sem er lesið, spjallað, sungið og leikið og þannig reynt að vinna með tungumálið á sem fjölbreyttastan hátt.Læsiskennslan þróast með auknum aldri og þroska nemenda, verkefnin verða meira krefjandi með það að markmiði að stuðla að læsi nemenda í víðtækum skilningi.

Þau matstæki sem við notum eru EFI-2 sem er notað til að finna þau börn sem víkja frá meðalfærni jafnaldra í máltjáningu og málskilningi og er það lagt fyrir börn á fjórða aldurári.
Hljóm 2 er greiningartæki sem er lagt fyrir að hausti til að meta hljóðkerfisvitund barna í elsta árgangi skólans í því skyni að greina þá nemendur sem eru líkleg til að glíma við lestrarerfiðleika síðar meir. Ef barn fær slaka niðurstöðu úr skimun er unnið markvisst að því að efla nemandann á því sviði. Það er gert í samvinnu við foreldra auk þess sem niðurstöður fylgja nemendunum yfir í grunnskólann.

Við leggjum áherslu á að kenna nemendum að lesa í og virða umhverfi og náttúru, kennum þeim að horfa, hlusta og meta, sem og að efla meðvitund um hvernig er rétt og skynsamlegt að ganga um náttúruna.

Við kennum nemendum að huga að hvernig þeim líður og setja orð á tilfinningar sínar. Einnig leggjum við áherslu á að nemandinn læri að lesa í svipbrigði og líðan annara og átti sig á því að hegðun og orðval getur haft áhrif á aðra í kringum okkur.

Í Klöppum nýtum við tækni í læsiskennslu af skynsemi, nemendur hafa kost á að nýta sér valin kennsluforrit með tilsögn og undir eftirliti frá kennara auk þess sem kennarar nýta snjalltæki með fjölbreyttum hætti við kennslu.

Nemendur með frávik í málþroska er mætt á einstaklingsmiðaðan með viðbótarþjónustu af hendi sérkennsluteymis.

Börn eru félagsverur sem hafa ríka þörf fyrir samskipti við aðra. Þau hafa m.a. þörf fyrir að spyrja spurninga, skiptast á skoðunum og ræða hugmyndir sínar, tilfinningar og líðan. Börn nota ýmsar leiðir til að tjá sig og eiga samskipti við aðra. Auk tungumálsins nota þau til dæmis ýmiss konar hljóð, snertingu, látbragð og leikræna tjáningu, tónlist, myndmál og dans. Í gefandi samskiptum og leik eykst félagsfærni og sjálfsmynd styrkist. Læsi í víðum skilningi þess orðs er mikilvægur þáttur samskipta. Læsi í leikskóla felur í sér þekkingu, leikni og hæfni barna til að lesa í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt.**

**Aðalnámskrá leikskóla. 2011.Bls 42

Í Klöppum styðjum við nemendur til læsis, við byrjum á grunninum í einföldum tjáskiptum hjá allra yngstu nemendum og bætum síðan við verkefnum eftir aldri og þroska nemenda.

© 2016 - 2024 Karellen