Sérkennsla

Börn eru eins ólík og þau eru mörg. Þau búa yfir mismunandi getu, reynslu og þroska og mismunandi styrk- og veikleikum. Í Klöppum er leitast við að taka tillit til hvers einstaks barns svo að það geti notið sín á eigin forsendum í barnahópnum. Þegar færni barns og/eða hegðun er ekki á við jafnaldra getur reynst nauðsynlegt að grípa inn í og veita barni stuðning og hvatningu í lengri eða skemmri tíma eftir þörfum barnsins og fjölskyldu þess. Í Klöppum leggjum við tvær stefnur til grundvallar í sérkennslunni:

1. Skóli fyrir alla

Í skóla fyrir alla er lögð áhersla á að mæta náms- og félagslegum þörfum allra barna. Notaðar eru fjölbreyttar aðferðir til að þróa uppeldisstarf með getubreiðum barnahópi, þar sem sveigjanleiki, hvetjandi námsumhverfi og fjölbreyttir kennsluhættir eru hafðir að leiðarljósi. Markmiðið er að hvert barn sé metið út frá hæfileikum sínum og finni að það á sinn sess í hópi jafnaldra. Í skóla fyrir alla er það talinn kostur að börn séu ólík og margbreytileiki er álitinn sjálfsagður hlutur líkt og annars staðar í samfélaginu. Í slíkum hóp skapast góðar aðstæður til að vinna gegn fordómum og stuðla að víðsýni og umburðarlyndi, jafnt barna, foreldra og kennara.

2. Snemmtæk íhlutun

Markmið snemmtækrar íhlutunar er að draga úr áhrifum fötlunar eða sérþarfa á líf barna með skipulögðum markvissum aðgerðum eða vinna forvarnarstarf fyrir börn í áhættuhópum. Grundvallarmarkmiðið er hið sama fyrir alla, þ.e. að leitast við að koma í veg fyrir erfiðleika í þroska og aðlögun síðar á lífsleiðinni og veita aðstandendum barna stuðning. Snemmtæk íhlutun er oftast miðuð við tímabilið frá fæðingu og fram til sex ára aldurs en leitast er við að hefja íhlutun eins snemma og hægt er og aðlaga hana að þeim einstaklingi sem unnið er með hverju sinni. Hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar á vel við starf í leikskólum og hægt er að beita henni á ýmsa þætti í daglegu skólastarfi og sérkennslu.
Snemmtæk íhlutun í Klöppum felur í sér að við viljum byrja strax að vinna markvisst með börnum sem við sjáum að fylgja ekki jafnöldrum sínum í þroska. Við viljum veita þeim stuðning strax í stað þess að bíða og sjá til. Fyrstu æviárin eru mikilvægur tími og með samstilltu átaki foreldra og leikskóla má oft ná mjög góðum árangri til dæmis hvað varðar seinkun í málþroska og hegðunarvanda. Gott dæmi um snemmtæka íhlutun í skólanum okkar eru greiningar- og skimunartæki eins og HLJÓM-2, EFI-2, AEPS-listarnir, ASEBA-listar, AAL-listinn, Íslenski þroskalistinn, Orðaskil o.fl.
HLJÓM-2 er aldursbundin skimun sem er notuð til að meta hljóðkerfis- og málvitund barna í elsta árgangi leikskólans í því skyni að finna þau börn sem eru í áhættu fyrir að verða í erfiðleikum með lestrarnámið í grunnskólanum. Þetta próf er lagt fyrir að hausti og ef barn greinist þar undir meðalfærni viljum við veita því strax markvissa málörvun í samráði við foreldra.
EFI-2 er málþroskaskimun fyrir börn á fjórða ári. Svör barnsins gefa vísbendingu um hvernig því miðar áfram í málþroskaferlinu. Þessi skimun kannar málskilning og tjáningarfærni barnsins og tilgangurinn er að finna þau börn sem þurfa á stuðningi að halda. Með því að finna börn með málörðugleika er hægt að bæta úr með snemmtækri íhlutun og etv. óska eftir aðstoð talmeinafræðings ef nauðsyn krefur.
AEPS-listarnir eru hagnýtt tæki kennara og foreldra til þess að meta hvar barnið er statt og með hvaða færni á að vinna og nýtist vel við gerð einstaklingsnámskrár. Lögð er áhersla á að samstarf foreldra og kennara við gerð markmiða. AEPS-matskerfið er notað við mat á getu barna frá fæðingu til 6 ára aldurs.
ASEBA-listarnir eru spurningalistar um hegðun og líðan barna á aldrinum 1½-5 ára, annar ætlaður foreldrum en hinn kennurum. Listarnir eru 4 síður þar sem svarað er spurningum varðandi færni og vanda barnsins og leikskólaráðgjafi fræðslusviðs vinnur úr niðurstöðunum.
AAL-listinn er athugunarlisti um atferli leikskólabarna ætlaður leikskólakennurum. Útfylling listans gefur hugmynd um hegðun, líðan og mögulegan atferlisvanda barna á leikskólaaldri.
Íslenska þroskalistanum er ætlað að meta þroska þriggja til sex ára barna með því að afla upplýsinga frá mæðrum þeirra. Mæður svara stöðluðum spurningum um mál- og hreyfifærni barna sinna á þeim tíma þegar listinn er fylltur út. (Smábarnalistinn er sambærilegur Íslenska þroskalistanum en er ætlað að meta mál- og hreyfiþroska 15 mánaða til 38 mánaða barna).
Orðaskil er málþroskaskimun og byggir á orðaforðagátlista fyrir börn á aldrinum eins og hálfs til þriggja ára. Prófinu er ætlað að mæla orða­forða barn­a og einnig hvort þau hafa náð valdi á beygingarkerfi og setningagerð.

Sérkennslustjóri

Í Klöppum er sérkennslustjóri sem starfar samkvæmt lögum og reglugerð um leikskóla, lögum um málefni fatlaðra, öðrum lögum er við eiga, aðalnámskrá leikskóla og stefnu viðkomandi sveitarfélags.
Gunnlaug E. Friðriksdóttir (Gulla) er sérkennslustjóri, netfang hennar er: gulla@akmennt.is

Hlutverk sérkennslustjóra

Sérkennslustjóri ber ábyrgð á og stjórnar skipulagningu, framkvæmd og endurmati sérkennslunnar í leikskólanum ásamt leikskólastjóra. Nokkrum sinnum á vetri setjast þeir niður og fara yfir stöðu sérkennslumála í skólanum. Sérkennslustjóri er faglegur umsjónarmaður sérkennslu í leikskólanum og hefur yfirumsjón með öllum málum sem tengjast sértækum athugunum, frumgreiningum og ráðgjöf til bæði starfsmanna og foreldra. Kennarar sem sjá um sérkennslu í skólanum funda reglulega með sérkennslustjóra. Þá ber hann ábyrgð á að börnum sem njóta sérkennslu í leikskólanum sé boðið upp á þroskavænleg verkefni og fylgir starfi inni á deildum vel eftir.

Ef vandi barns er þess eðlis að leikskóli og foreldrar geta ekki leyst úr honum í sameiningu er leitað ráða hjá sérkennsluráðgjafa, Elvu Haraldsdóttur, sem starfar á Fræðslusviði Akureyrarbæjar. Hjá Elvu geta fjölskyldur og kennarar barna fengið aukinn stuðning, aðstoð við greiningu og ráðgjöf. Á Fræðslusviði starfar einnig sálfræðingur fyrir leikskólana, Guðný Dóra Einarsdóttir, sem alltaf er hægt leita til. Sjá nánar um skólaþjónustu Akureyrarbæjar.

Sérkennslustjóri er einnig með vinnustundir, sinnir málörvun í skólanum (þ.m.t. þeim sem eru undir meðalfærni í HLJÓM-2 og EFI-2 skimun) og vinnur með þeim börnum sem þurfa stuðning á ýmsan hátt.
Hann er einnig í góðu samstarfi við aðra fagaðila og styður til dæmis við þau börn sem eru hjá talmeinafræðingi og sjúkraþjálfara. Þegar börn þykja sein til máltöku hvetur sérkennslustjóri kennarana til að vera með sérstakar yndislestrarstundir inni á deildum og fylgist vel með þeim.

Samvinna við foreldra og forráðamenn

Í Klöppum leggjum við áherslu á gott foreldrasamstarf og að foreldrar komi að ferli sérkennslumála frá upphafi. Ef foreldrar og/eða kennarar hafa sérstakar áhyggjur af hegðun eða þroska barnsins fer ákveðið ferli af stað. Foreldrar geta líka alltaf haft samband að fyrra bragði hafi þeir áhyggjur af einhverju, bæði við kennara barnsins, deildarstjóra eða beint við sérkennslustjóra.
Sérkennslustjóri vinnur í nánu samstarfi við foreldra/forráðamenn barna sem njóta sérkennslu í skólanum og situr teymisfundi og viðtöl með þeim. Hann veitir foreldrum/forráðamönnum barna með sérkennslu stuðning, fræðslu og ráðgjöf eftir þörfum hvers og eins.

Gagnasöfnun

Þegar áhyggjur eða spurningar vakna í leikskólanum varðandi hegðun eða þroska barns er fyrsta skrefið ávallt að tala við foreldra/forráðamenn barnsins. Skoða hvernig gengur heima og í leikskólanum og ræða leiðir til úrbóta. Gagnkvæm virðing skal höfð að leiðarljósi þar sem opin samskipti eru mikilvæg. Næsta skref er síðan gagnasöfnun en undir það fellur til dæmis skriflegar skráningar, myndbandsupptökur, greinargerðir og útfylling matstækja/lista ef þörf er á.

Staðsetning sérkennslu

Sérkennsla í Klöppum á sér stað bæði inni á deildum í litlum hópum en einnig í daglegu starfi þar sem börn læra meðal annars sjálfshjálp, sjálfstæði og félagsfærni.
Ef talið er að ekki sé unnt að kenna barni á fullnægjandi hátt inni á deild er hægt að nota sérstakt sérkennsluherbergi sem heitir Laupur.

Einstaklingsnámskrár

Einstaklingsnámskrár eru mikilvægur grunnur fyrir sérkennslu í Klöppum. Við gerð þeirra er stuðst við AEPS-lista (sjá hér fyrir ofan) sem eru notaðir til að skipuleggja nám barna með sérþarfir og tryggja að þeir séu virkir þátttakendur í skólastarfinu. Með einstaklingsnámskrá má aðlaga nám barna með sérþarfir að skólanámskrá og gera þeim kleift að stunda nám við sömu skilyrði og önnur börn. Námskrárnar taka mið af námsþörfum hvers og eins og auka líkurnar á að allir sem koma að þjálfun og kennslu barnanna vinni á sama hátt. Mikilvægt er að einstaklingsnámskrár byggi á styrkleikum og áhugasviði þess sem hún er búin til fyrir og að í henni komi fram þau markmið sem stefnt er að, leiðir sem hægt er að fara að markmiðunum og upplýsingar um hvernig meta eigi árangurinn.

© 2016 - 2022 Karellen