Í sérkennsluteymi Klappa eru:

Kristjana I. Gunnarsdóttir, sérkennslustjóri(fulltrúi Klappa í ÍSAT - Íslenska sem annað tungumál)
Álfey S. Arnfjörð Haraldsdóttir, B.Ed. í leikskólafræðum
Herdís Júlía Júlíusdóttir, iðjuþjálfi
Bianka Weissflog, leikskólakennari
Eva Reykjalín Elvarsdóttir, danskennari
Eydís Eyþórsdóttir, leikskólakennari
Birgitta Pálsdóttir, leikskólakennari
Kristbjörg Auður Eiðsdóttir, kennari


Netfang sérkennslustjóra er kris@akmennt.is og símanúmerið í Laupi, vinnuaðstöðu sérkennsluteymis, er 414-3163

Sérkennsla og viðbótarþjónusta í Klöppum:

Sérkennsla og viðbótarþjónusta fyrir nemendur í Klöppum er veitt bæði inni á deildum í litlum hópum og einstaklingslega, þar sem börn læra meðal annars sjálfshjálp, sjálfstæði og félagsfærni og efla orðaforða og tjáningarfærni.
Ef talið er að ekki sé unnt að kenna barni á fullnægjandi hátt inni á deild er einnig hægt að nýta sérkennsluherbergið sem heitir Laupur og önnur svæði í leikskólanum þar sem gefst meira næði fyrir markvissa vinnu nemenda og kennara.

Í Klöppum leggjum við eftirfarandi áherslur til grundvallar í sérkennslunni:

Skóli fyrir alla

Markmiðið er að hvert barn sé metið út frá hæfileikum sínum og finni að það tilheyri hópnum. Í skóla fyrir alla er það talinn kostur að börn séu ólík og margbreytileiki er álitinn sjálfsagður hlutur líkt og annars staðar í samfélaginu. Í slíkum hóp skapast góðar aðstæður til að vinna gegn fordómum og stuðla að víðsýni og umburðarlyndi, jafnt barna, foreldra og kennara.

Snemmtæk íhlutun
Snemmtæk íhlutun í Klöppum felur í sér að við viljum byrja strax að vinna markvisst með börnum sem við sjáum að fylgja ekki jafnöldrum sínum í þroska og færni. Við viljum veita þeim stuðning strax í stað þess að bíða og sjá til. Samstillt átak milli foreldra og kennara er grundvöllur að góðum árangri, sérstaklega varðandi málþroska og hegðun.

Í Klöppum nýtum við margvíslegar aðferðir til að skima og skrá færni barnanna og getum þannig betur séð hvar skóinn kreppir og veitt stuðning út frá getu og styrkleikum nemenda hverju sinni.

Þar má nefna:
-EFI-2 málþroskaskimun sem við gerum með öllum börnum á fjórða aldursári í Klöppum
-AEPS færnimiðað matskerfi sem bæði kennarar og foreldrar nota í sameiningu
-AAL-listann (Athugunarlisti fyrir atferli leikskólabarna/Pre-School Behavior Checklist)
-Íslenska þroskalistann, sem er ætlað að meta þroska þriggja til sex ára barna
-Smábarnalistann, sem metur mál- og hreyfiþroska 15 mánaða til 38 mánaða barna.
-Orðaskil
-HLJÓM-2, aldursbundin skimun til að meta hljóðkerfis- og málvitund barna í elsta árgangi leikskólans.

Mats- og skimunartækin gera okkur auðveldara að meta þörf á snemmtækri íhlutun í samstarfi við foreldra.

Samvinna við foreldra og forráðamenn

Í Klöppum leggjum við áherslu á gott foreldrasamstarf þar sem foreldrar eru upplýstir um hvert skref sem sérkennsluteymið stígur. Ef foreldrar og/eða kennarar hafa sérstakar áhyggjur af hegðun eða þroska barnsins fer ákveðið ferli af stað. Foreldrar geta líka alltaf haft samband að fyrra bragði hafi þeir áhyggjur af einhverju, bæði við kennara barnsins, deildarstjóra eða beint við sérkennslustjóra.
Sérkennslustjóri vinnur í nánu samstarfi við foreldra/forráðamenn barna sem njóta sérkennslu í skólanum og situr teymisfundi og viðtöl með þeim. Hann veitir foreldrum/forráðamönnum barna með sérkennslu stuðning, fræðslu og ráðgjöf eftir þörfum hvers og eins. Fyrsta vinnan hefst inni á deild hjá viðkomandi barni og hægt er að leita leiða hjá sérkennsluteymi ef vandinn verður mikill.

Gagnasöfnun

Þegar áhyggjur eða spurningar vakna í leikskólanum varðandi hegðun eða þroska barns er fyrsta skrefið ávallt að tala við foreldra/forráðamenn barnsins. Skoða hvernig gengur heima og í leikskólanum og ræða leiðir til úrbóta. Áður en sérkennsluteymi fer inn á deild og skoðar viðkomandi barn þarf það að fara í sjónmælingu og háls, nef og eyrnalæknis til að útiloka læknisfræðilegar ástæður fyrir hegðun barnsins. Gagnkvæm virðing skal höfð að leiðarljósi þar sem opin samskipti eru mikilvæg. Næsta skref er síðan gagnasöfnun en undir það fellur til dæmis skriflegar skráningar, myndbandsupptökur, greinargerðir og útfylling matstækja/lista ef þörf er á.

Einstaklingsnámskrár

Einstaklingsnámskrá er námskrá sem sérkennari útbýr út frá þörfum hvers barns sem þarf á að halda. Markmið námskrárinnar er að ýta undir alhliða þroska og virkni barns inn á deild en það gerir því kleift að stunda nám við sömu skilyrði og önnur börn. Námskrárnar taka mið af námsþörfum hvers og eins og auka líkurnar á að allir sem koma að þjálfun og kennslu barnsins vinni á sama hátt. Mikilvægt er að einstaklingsnámskrár byggi á styrkleikum og áhugasviði þess sem hún er búin til fyrir og að í henni komi fram þau markmið sem stefnt er að, leiðir sem hægt er að fara að markmiðunum og upplýsingar um hvernig meta eigi árangurinn.

Samstarfsaðilar, ráðgjafar og sérfræðingar

Við erum í góðu samstarfi við Skólaþjónustu Akureyrarbæjar á Fræðslu- og lýðheilsusviði og Barna- og fjölskylduþjónustu Akureyrarbæjar á Velferðarsviði, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, talmeinafræðinga, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, lækna og hjúkrunarfræðinga, grunnskólana á Akureyri og sérdeildir þeirra, Barnaverndarþjónustu Eyjafjarðar og fleiri.

Í Þjónustugátt Akureyrarbæjar má finna ýmsar rafrænar umsóknir um viðbótarþjónustu hjá leik- og grunnskólum og á sviði velferðarmála.


© 2016 - 2024 Karellen