Börnin á Helli leika sér mikið í Kvenfélagsreitnum við Áshlíð og hafa tekið eftir því að þar vantar rusladall. Þau tóku málið í sínar hendur, teiknuðu myndir og sömdu fallegt bréf sem þau færðu bæjarstjóranum.
Í bréfinu segja börnin frá því að þau vilji hafa hreint og snyrtilegt í kringum sig – „við viljum hafa jörðina fína“. Teikningarnar sýna persónur að henda rusli í tunnu og minna okkur á mikilvægi þess að hugsa vel um umhverfið.
Verkefnið er gott dæmi um hvað það skiptir máli að hlusta á börn. Í anda Barnasáttmálans eiga börn rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í málum sem snerta þau – og það er okkar fullorðna fólksins að taka mark á því sem þau hafa að segja. Þegar börn fá tækifæri til að láta rödd sína heyrast, læra þau að þau geta haft áhrif og skipta máli.
Við erum ótrúlega stolt af börnunum og þeirra frumkvæði – og þökkum bæjarstjóra fyrir hlý viðbrögð. Nú er í bígerð að setja upp rusladall á svæðinu, að frumkvæði yngstu íbúanna!