Minnisblað Skólahald á Akureyri – óveður og/eða ófærð.

Ábyrgð foreldra

Þegar vond vetrarveður ganga yfir verða foreldrar ávallt að meta sjálfir hvort óhætt sé að senda barn í skólann. Í skólanum er alltaf einhver hluti starfsmanna mættur til að taka á móti þeim börnum sem mæta. Sé barn heima vegna veðurs eða ófærðar þarf að tilkynna það í síma eða með tölvupósti.

Ábyrgð skólayfirvalda

Ef veðurspá er mjög slæm er settur inn staðlaður texti á heimasíðu allra skóla daginn áður, um hvernig skuli fylgjast með auglýsingum og hvernig brugðist er við ef fella þar niður kennslu og biðja foreldra um að halda börnum heima. Ef veður eða færð er með þeim hætti að morgni að lögregla mælir með því að börnum sé haldið heima, er kennsla felld niður og foreldrar beðnir um að halda börnum sínum heima. Fræðslustjóri er í slíkum tilvikum í sambandi við lögreglu og kemur tilkynningu um að kennsla sé felld niður í grunnskólum á Akureyri og foreldrar leikskólabarna beðnir um að halda börnum sínum heima í RÚV og Bylgjuna. Er þá gert ráð fyrir því að fyrsta tilkynning sé birt kl. 7.00 að morgni. Þá er sendur tölvupóstur til allra skólastjóra, stöðluð frétt birt á heimasíðum allra skólanna og skóladeild. Skólar senda einnig staðlaðan tölvupóst til foreldra í Mentor. (Skoða þarf hvort sms skeyti má senda með lítilli fyrirhöfn og kostnaði.)

Framkvæmd

Það er gengið út frá því að einhverjir starfsmenn mæti alltaf í skólana. Hver skóli gerir viðbragðsáætlun, sem er endurskoðuð á hverju hausti, vegna þessa þar sem fram kemur hverjir mæta fyrstir af starfsmönnum og hvaða stjórnandi mætir með. Ef börn mæta þrátt fyrir þetta er þeim sinnt í skólunum, þann tíma sem þau eiga að vera samkvæmt stundaskrá/dvalarsamningi. Gert er ráð fyrir því að einn stjórnandi sé í hópi þeirra starfsmanna sem mæta í skólann við þessar aðstæður. Þegar kennsla er felld niður er ekki verið að gefa starfsmönnum frí í þeim skilningi og reiknað með að þeir mæti sem geta.

© 2016 - 2024 Karellen